Hollis í stuði gegn KR

1. deildarlið Hamars vann góðan sigur, 83-80, þegar úrvalsdeildarlið KR kom í heimsókn í Lengjubikar karla í körfubolta í kvöld.

Leikurinn var jafn upp í 9-9 en þá tóku KR-ingar 3-12 syrpu og leiddu svo að loknum 1. leikhluta, 20-25.

Hamarsmenn voru síðan í gríðarlega miklu stuði í 2. leikhluta þar sem Jerry Lewis Hollis fór fremstur í flokki. Hann skoraði sautján stig í leikhlutanum og lauk þessari fínu rispu með góðri troðslu og staðan var þá orðin 48-41, Hamri í vil. Staðan var svo 50-43 í hálfleik.

Hvergerðingar höfðu áfram frumkvæðið í 3. leikhluta þar sem þeir voru skrefi á undan KR-ingum og stóðu öll áhlaup þeirra af sér. KR minnkaði muninn í 63-59 undir lok leikhlutans en Hamar skoraði síðustu fimm stigin og staðan var 68-59 þegar 4. leikhluti hófst.

Þar sóttu KR-ingar fast að Hamri og með góðum 2-13 kafla í byrjun náði KR að komast yfir, 70-72. Hamar svaraði og breytti stöðunni í 77-74 en Brynjar Þór Björnsson jafnaði fyrir KR með tveimur þristum í röð.

Þá var rúm mínúta eftir á klukkunni en á lokamínútunni hittu KR-ingar illa auk þess sem Bjartmar Halldórsson hirti af þeim boltann þegar fimmtán sekúndur voru eftir í stöðunni 82-80. Bjartmar lauk svo leiknum á vítalínunni þegar átta sekúndur voru eftir og tryggði Hamri þriggja stiga sigur því að þriggja stiga tilraun KR-inga í lokasókninni klikkaði.

Hollis var langbesti maður vallarins en hann skoraði 32 stig. Örn Sigurðarson skoraði 13 stig og Ragnar Nathanaelsson átti fínan leik með 11 stig og 10 fráköst. Bjarni Rúnar Lárusson skoraði 8 stig, Halldór Gunnar Jónsson 7, Hjalti Valur Þorsteinsson 5, Mikael Rúnar Kristjánsson 4 og Bjartmar Halldórsson 3.

Fyrri greinÞór á toppnum í D-riðli
Næsta greinGagnrýna seinagang við tvöföldun Suðurlandsvegar