Hólmfríður innsiglaði sigurinn

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu vann öruggan 4-1 sigur á Dönum á Algarve mótinu í Portúgal í dag. Rangæingar léku stórt hlutverk í leiknum.

Dagný Brynjarsdóttir var fyrirliði liðsins í fyrsta skipti í sínum 59. landsleik og Hrafnhildur Hauksdóttir var einnig í byrjunarliðinu. Hólmfríður Magnúsdóttir byrjaði á bekknum en kom inná á 62. mínútu.

Ísland komst í 2-0 snemma leiks, með mörkum frá Elínu Mettu Jensen og sjálfsmarki daga á 10. og 11. mínútu.

Staðan var 2-0 í hálfleik en Danir minnkuðu muninn í upphafi seinni hálfleik. Sandra María Jessen kom Íslandi í 3-1 á 59. mínútu og Hólmfríður Magnúsdóttir innsiglaði svo sigur Íslands með marki í uppbótartíma.

Það skýrist í lokaleiknum gegn Kanada um hvaða sæti Ísland leikur. Kanada vann á sama tíma 1-0 sigur á Belgíu og íslenska liðinu nægir því jafntefli gegn Kanada til að leika um gullið á mótinu. Ef Ísland tapar leiknum þá fer það eftir úrslitum úr leik Danmerkur og Belgíu um hvaða sæti Ísland leikur.

Fyrri greinReykinn lagði frá ruslabrennu
Næsta greinGæsluvarðhald framlengt um fjórar vikur