Hólmfríður knattspyrnukona ársins

Leikmannaval Knattspyrnusambands Íslands hefur valið Rangæinginn Hólmfríði Magnúsdóttur knattspyrnukonu ársins 2010.

Hólmfríður var fastamaður í liði Philadelphia Independence í bandarísku atvinnumannadeildinni. Liðið kom nokkuð á óvart og stóð uppi í lok tímabilsins með silfurverðlaunin í höndunum.

Hólmfríður lék nánast allar stöður á vellinum á þessu tímabili með Philadelphia en mest þó í bakverðinum, eitthvað sem er ný staða fyrir Hólmfríði en hún leysti hana með prýði.

Sem fyrr var Hólmfríður einn af lykilleikmönnum íslenska landsliðsins. Hún lék níu landsleiki á árinu og skoraði í þeim sjö mörk. Hún er nú orðin þriðja markahæsta landsliðskonan frá upphafi, hefur skorað 22 mörk í 59 landsleikjum.

Knattspyrnumaður ársins var valinn Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður þýska liðsins Hoffenheim.

Þetta er í sjöunda skiptið sem að knattspyrnufólk ársins er sérstaklega útnefnt af KSÍ.

Fyrri greinHorfið frá stórtækum niðurskurði um sinn
Næsta greinValsmenn reyndust sterkari