Hólmfríður kölluð inn fyrir Dagnýju

Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði mark Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hólmfríður Magnúsdóttir hefur verið kölluð inn í landsliðshóp Íslands í knattspyrnu fyrir leikinn gegn Svíþjóð 27. október næstkomandi.

Hún kemur inn í hópinn í stað Dagnýjar Brynjarsdóttur, en Dagný getur ekki tekið þátt í leiknum vegna meiðsla sem hún hlaut í leik gegn Val fyrr í sumar. Hólmfríður hefur leikið 112 landsleiki og skorað í þeim 37 mörk.

Barbára Sól Gísladóttir og Anna Björk Kristjánsdóttir eru báðar í hópnum sem kynntur var í síðustu viku.

Ísland mætir Svíþjóð þriðjudaginn 27. október og fer leikurinn fram á Gamla Ullevi í Gautaborg. Liðin eru jöfn að stigum á toppi riðilsins með 13 stig eftir fimm leiki, en um er að ræða leik í undankeppni EM 2022.

Hólmfríður skipti frá Selfossi til Avaldsnes í Noregi í haust. Hún spilaði sinn þriðja leik með Avaldsnes í gærkvöldi þegar liðið mætti Lilleström. Hólmfríður kom inná sem varamaður á 60. mínútu í stöðunni 1-0 fyrir Lilleström og breytti leiknum. Hólmfríður lagði upp tvö mörk og Avaldsnes sigraði 1-3.

Fyrri greinSundhöll Selfoss lokað vegna smits hjá starfsmanni
Næsta greinSýnatökum komið undir þak