Knattspyrnukonan Hólmfríður Magnúsdóttir frá Uxahrygg á Rangárvöllum tilkynnti á Facebooksíðu sinni í kvöld að hún hafi lagt skóna á hilluna.
„Eftir 20 ára feril í meistaraflokki hef ég tekið þá ákvörðun að taka af mér legghlífarnar og koma takkaskónum fyrir uppá hillu. Mig langar til að þakka öllum liðsfélögum í gegnum ferilinn, öllum þjálfurunum sem ég hef haft og ýttu mér áfram í að ná árangri, öllum fyrirmyndunum mínum og þá sérstaklega Olgu Færseth sem var eins og mamma mín á vellinum, KSÍ fyrir landsliðsárin og ómetanlega hjálp bæði innan og utanvallar, fyrir öll góðu árin í KR og að lokum Selfossi fyrir að hafa kveikt neistann eftir barnsburð,“ segir Hólmfríður í Facebookfærslu sinni.
Hólmfríður er ein reynslumesta knattspyrnukona landsins með yfir 300 meistaraflokksleiki og 113 landsleiki. Hún er uppalin hjá KFR en hefur á sínum ferli leikið með Selfossi, KR, Val, ÍBV, Avaldsnes í Noregi, Kristianstad í Svíþjóð, Fortuna Hjörring í Danmörku og Philadelphia Independence í Bandaríkjunum.
„Ég er innilega þakklát fyrir síðustu tvö árin mín í boltanum á Selfossi eftir barnsburð. Árin þar kveiktu neistann í gömlu og náði ég að njóta þess að spila fótbolta, vinna bikarmeistaratitil, skora í úrslitaleiknum, vera kölluð aftur í landsliðið og enda ferilinn aftur í atvinnumennsku í Noregi með syni mínum en það er ekki sjálfsagður hlutur fyrir mæður að halda áfram knattspyrnuferli sínum eftir barnsburð. Að lokum langar mig að þakka fjölskyldunni minni og vinum fyrir ómetanlegan stuðning í gegnum ferilinn og síðast en ekki síst stuðningsmönnum allra þeirra liða sem ég hef spilað fyrir. Héðan í frá spila ég leikinn úr stúkunni og held áfram að njóta lífsins í sveitinni án legghlífa,“ segir Hólmfríður ennfremur.
Hólmfríður gekk í raðir Selfoss árið 2019 og hefur síðan spilað 32 leiki fyrir félagið í deild og bikar og meðal annars orðið bikarmeistari, þar sem hún skoraði annað marka Selfoss í úrslitaleiknum. Síðasti leikur Hólmfríðar fyrir Selfoss 3-1 sigurleikur gegn KR í deildarbikarnum þann 28. febrúar síðastliðinn.