Selfoss vann öruggan útisigur á KR í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu í dag. Lokatölur urðu 0-5.
Selfoss byrjaði leikinn af krafti og Hólmfríður skoraði strax á 12. mínútu þegar hún fékk sendingu innfyrir frá Magdalenu Reimus, steig út varnarmann og lék á markvörð KR. Átta mínútum síðar tók Anna María Friðgeirsdóttir hornspyrnu sem Hólmfríður skallaði síðan inn á teiginn. Þar var Tiffany McCarty á réttum stað og skallaði boltann í netið.
Hólmfríður átti hörkuskalla í stöngina á 37. mínútu en það var McCarty sem lokaði fyrri hálfleiknum hjá Selfyssingum á lokamínútu fyrri hálfleiks þegar hún fékk frábæra sendingu innfyrir frá Hólmfríði og skoraði af öryggi.
Selfoss leiddi því 0-3 í hálfleik og ekki voru liðnar nema rúmar fimm mínútur af seinni hálfleik þegar Clara Sigurðardóttir skoraði fjórða mark Selfoss eftir sendingu frá Magdalenu Reimus.
Selfyssingar voru einfaldlega miklu sterkari í þessum leik og Hólmfríður tryggði þeim 0-5 sigur þegar hún skoraði annað mark sitt tíu mínútum fyrir leikslok. Hún skallaði þá aðra hornspyrnu frá Önnu Maríu í netið.
Eftir leikinn eru Selfyssingar komnir aftur upp í 3. sæti deildarinnar, með 19 stig eins og Fylkir sem er í fjórða sætinu. KR er áfram í botnsætinu með 10 stig.