Keppendur úr liði HSK unnu til fimm verðlauna á seinni degi bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands á Sauðárkróki í dag.
Hreinn Heiðar Jóhannsson varð annar í hástökki karla með stökk upp á 1,93 m. Keppnin í hástökkinu stóð á milli Hreins Heiðars og Selfyssingsins Arnar Davíðssonar, sem keppir fyrir FH. Báðir felldu þeir 1,96 m þrívegis en Örn fór yfir 1,93 í fyrstu tilraun sem dugði honum til sigurs.
Agnes Erlendsdóttir varð önnur í 800 m hlaupi kvenna á 2:22,71 mín og Kristinn Þór Kristinsson varð þriðji í 800 m hlaupi karla á 1:56,33 mín.
Ólafur Guðmundsson varð þriðji í 110 m grindahlaupi karla á 15,77 sek og Fjóla Signý Hannesdóttir varð þriðja í 100 m grindahlaupi kvenna á 15,13 sek.
HSK varð í 5. sæti í stigakeppni félaganna með 97,5 stig. Kvennaliðið varð í 6. sæti í keppni kvennaliða með 48,5 stig en í karlakeppninni var HSK í 5. sæti með 49 stig.