„Þetta var miklu betra en síðasti leikur. Við getum verið ánægðar með að vera komnar 2-1 yfir en við getum ekki fagnað meira en það.”
Þetta sagði Kristrún Sigurjónsdóttir, leikmaður Hamars, í samtali við sunnlenska.is eftir stórsigurinn gegn Njarðvík í kvöld.
„Við töpuðum síðasta leik og þurftum greinilega eitthvað að taka til hjá okkur eftir hann. Ég held að Gústi hafi látið okkur horfa á tapleikinn fimm sinnum til að fara yfir hvað við vorum að gera vitlaust. Það virkaði hjá honum núna og vonandi horfum við bara aftur á tapleikinn fyrir næsta leik,” sagði Kristrún sem var ánægð með liðsheildina hjá Hamri í leiknum.
„Vörnin var þétt hjá okkur í kvöld, við náðum að stoppa þær og ég er virkilega ánægð með allar stelpurnar í liðinu. Við vorum að spila eins og lið en það vantaði í síðasta leik. Við erum með frábæra leikmenn í öllum stöðum og við sýndum það í kvöld að þegar við spilum saman eins og lið þá getur enginn stöðvað okkur.”
Fjórði leikur liðanna verður í Njarðvík á laugardag og með sigri tryggir Hamar sér sæti í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn. „Við verðum að mæta jafn brjálaðar í næsta leik. Njarðvík er ekki að fara að gefa okkur neitt á laugardaginn,” sagði Kristrún að lokum.