Hamar/Þór tók á móti Val í kvöld í lokaumferð deildarkeppni úrvalsdeildar kvenna í körfubolta í Þorlákshöfn. Deildinni verður nú skipt upp og fyrir leikinn var ljóst að Hamar/Þór yrði í neðri hlutanum.
Valskonur gátu hins vegar lyft sér upp í efri hlutann og þeim tókst það með 83-89 sigri.
Fyrsti leikhluti var hnífjafn, Valur byrjaði betur en Hamar/Þór svaraði vel og komst í 16-10. Þá tóku Valskonur við sér og staðan var 22-22 eftir tíu mínútna leik. Heimakonur náðu aftur forskoti í upphafi 2. leikhluta en í stöðunni 29-22 tóku Valsarar leikinn yfir og staðan var 41-47 í hálfleik.
Valur leiddi nánast allan 3. leikhlutann en undir lok hans jafnaði Hamar/Þór 62-62 og næstu mínútur voru æsispennandi. Þegar tvær og hálf mínúta var eftir af leiknum var staðan 83-83 en þeim sunnlensku tókst ekki að koma boltanum í körfuna eftir það. Valur skoraði síðustu sex stig leiksins og tryggði sér nauman sigur.
Abby Beeman var stiga- og framlagshæst hjá Hamri/Þór með 25 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar. Hana Ivanusa var sömuleiðis drjúg með 17 stig og 6 fráköst.
Hamar/Þór lauk deildarkeppninni í 9. sæti en Valur lyfti sér upp í 5. sætið. Með Hamri/Þór í B-riðlinum verða Tindastóll, Stjarnan, Grindavík og Aþena.
Hamar/Þór-Valur 83-89 (22-22, 19-25, 27-19, 15-23)
Tölfræði Hamars/Þórs: Abby Beeman 25/8 fráköst/7 stoðsendingar, Hana Ivanusa 17/6 fráköst, Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir 16, Fatoumata Jallow 8, Anna Soffía Lárusdóttir 7/4 fráköst, Kristrún Ríkey Ólafsdóttir 6/7 fráköst, Gígja Rut Gautadóttir 4, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 4 fráköst.