Í bókinni Stafróf knattspyrnunnar, eftir Guðjón Inga Eiríksson, er víða komið við, innan lands og utan. Hér er örlítið brot um efnistökin, án þess að nefna of mikið:
Hver týndist um borð í Herjólfi? Hvaða söngkona hitti ekki markið? Hvað er Rabona? Hver dó á vellinum en var lífgaður við? Hver var þekkt fyrir flikk-flakk-innköst? Hver fann HM-styttuna? Hver setti snákinn í jakkavasann hjá samherja sínum? Hver ældi á völlinn? Já, og hvaða mikli markaskorari kúkaði á sig í landsleik?
Hér á eftir bregðum við okkur í einn kaflann og er hann merktur bókstafnum D. Þar er að sjálfsögðu að finna Dagnýju Brynjarsdóttur:
Dagný Brynjarsdóttir — Hörkutólið frá Hellu
Miðjumaðurinn Dagný Brynjarsdóttir frá Hellu átti magnaðan leik þegar Ísland sló Holland út í lokaleik riðlakeppninnar á Evrópumótinu 2013 og komst fyrir vikið í 8-liða úrslitin. Leiknum lauk 1–0 og skoraði hún marki! mikilvæga með glæsilegum skalla. Seinna kom í ljós og það ekki fyrr en eftir mótið, að hún hafði spilað leikinn með brotið bein í hægri fæti. Það reyndist hafa brotnað í leiknum á undan, sem var gegn Þýskalandi. Þá hafði hún farið af velli vegna meiðsla í fætinum. Þau voru þó ekkert skoðuð nánar á þeirri stundu og því lét Dagný slag standa þótt hún fyndi eitthvað til og spilaði í sigurleiknum gegn Hollendingunum. Sama gerði hún líka í næsta leik Íslands í mótinu. Sá var gegn Svíþjóð, en úrslitin þar látum við liggja milli hluta.
Dagný, sem í júlílok 2024 á að baki 113 landsleiki og hefur skorað 38 mörk í þeim, hefur í tvígang orðið að gera langt hlé á knattspyrnuiðkun sinni og eru ástæðurnar fyrir því ánægjulegar, nefnilega barneignir. Þær skiluðu henni og eiginmanni hennar, Ómari Páli Sigurbjartssyni, tveimur drengjum. Um seinni meðgönguna var gerð heimildarmynd, sem unnin var að frumkvæði enska liðsins West Ham, en Dagný gerðist leikmaður þess árið 2021 eftir að hafa áður leikið með KFR, Val, Florida State University í Bandaríkjunum — lék í fyrstu með Val á milli keppnistímabila þar og síðan Selfossi — Bayern München í Þýskalandi, aftur Selfossi, Portland Thorns í Bandaríkjunum og Selfossi á ný. Tilgangurinn með myndinni, sem hlaut heitið Ómarsson, er einfaldlega að sýna þær áskoranir sem blasa við atvinnukonum í knattspyrnu þegar stefnir í fjölgun í fjölskyldu þeirra.