Fletti lesendur upp á orðinu „hörmung“ í íslenskri orðabók þá gætu þeir jafnvel dottið niður á lýsingu á leik Selfoss og KR í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Selfoss vann Öruggan sigur, 22-19.
Leikurinn fór ágætlega af stað þó að fyrri hálfleikur hafi iðulega verið sýndur hægt og í svarthvítu. Gestirnir skoruðu fyrsta mark leiksins en Selfoss svaraði með þremur mörkum í röð og hélt forystunni eftir það. KR-ingar áttu þó sína spretti og minnkuðu muninn í 8-7 um miðjan fyrri hálfleik en þá gáfu Selfyssingar í, náðu mest fimm marka forskoti og leiddu í hálfleik, 15-11.
Einar Sverrisson og Sverrir Pálsson stóðu uppúr hjá Selfyssingum í fyrri hálfleik, enda báðir um og yfir tveir metrar á hæð. KR-ingar leystu þann vanda með því að taka þá báða úr umferð í einu og komu sér þannig inn í leikinn aftur á kafla.
Seinni hálfleikur var einhverskonar grínútgáfa af handbolta, þó að þetta þrjátíumínútna atriði væri langt frá því boðlegt skemmtiatriði á Selfossþorrablótið. Eftir tíu mínútna leik höfðu bæði lið skorað tvö mörk. Gunnar Selfossþjálfari tók þá leikhlé en það dugði ekki til að tala Selfyssinga til. KR skoraði tvö næstu mörk og í heila eilífð var staðan 17-15. Borgandi áhorfendur hefðu með réttu átt að fá helminginn af miðaverðinu endurgreitt, svo slakur var leikur liðanna í síðari hálfleik.
KR-ingar drápu allt tempó í leiknum og Selfyssingar duttu niður á sama plan og andstæðingarnir en hefðu á réttum hraða átt að keyra yfir slakt lið gestanna. KR vann seinni hálfleikinn 7-8 en þrátt fyrir fá mörk fá varnir liðanna ekki mikið hrós, svo slakur var sóknarleikurinn. Sebastian Alexandersson stóð þó fyrir sínu í marki Selfoss í seinni hálfleik og bjargaði sínum mönnum frá því að þurfa að bera hauspoka fram að næsta leik.
Selfyssingar sýndu klærnar í örstutta stund þegar leið á síðari hálfleik og breyttu þá stöðunni úr 17-15 í 21-16 og þrátt fyrir að hafa hleypt KR inn í leikinn í síðari hálfleik hafði maður aldrei á tilfinningunni að sigur þeirra vínrauðu væri í hættu.
Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 6/1 mörk, Sverrir Pálsson skoraði 5, Andri Hrafn Hallsson 3, Eyvindur Hrannar Gunnarsson og Ómar Vignir Helgason 2 og þeir Jóhann Erlingsson, Andri Már Sveinsson, Árni Felix Gíslason og Ómar Ingi Magnússon skoruðu allir eitt mark.
Sebastian varði 19/2 skot í marki Selfoss og var með 50% markvörslu.
Selfossliðið er taplaust er í 2. sæti deildarinnar með 11 stig og á leik til góða á topplið Aftureldingar.
UPPFÆRT KL. 00:26 með afsökunarbeiðni, hafi einhver tekið orðalagið nærri sér