Kvennalið Hamars kastaði frá sér sigrinum í 4. leikhluta þegar liðið tók á móti Snæfelli í Iceland-Express deildinni í körfubolta í dag. Hamar náði 21 stigs forskoti í seinni hálfleik en tapaði að lokum, 68-71.
Fyrsti leikhlutinn var jafn og staðan að honum loknum var 18-15. Hamar náði tíu stiga forskoti í upphafi 2. leikhluta, 29-19, en Snæfell minnkaði muninn fyrir hálfleik, 34-27.
Samantha Murphy var sjóðheit um miðjan 3. leikhluta og skoraði þá 16 stig í röð. Á þeim kafla náði Hamar 21 stigs forskoti, 52-31, en Snæfell náði að minnka muninn niður í 15 stig fyrir lok 3. leikhluta, 60-45.
Síðasti fjórðungurinn var skelfilegur hjá Hamri. Álfhildur Þorsteinsdóttir skoraði reyndar fyrstu körfuna og kom Hamri í 62-45 en eftir það kom 21-2 kafli hjá Snæfelli sem komst yfir, 64-66, þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir. Hamarskonur hittu mjög illa á þessum kafla og misstu boltann þess á milli.
Eftir að Snæfell komst yfir hættu bæði lið að hitta en þegar 52 sekúndur voru eftir jafnaði Samantha Murphy úr vítaskoti, 66-66. Snæfell svaraði með þriggja stiga körfu og gestirnir kláruðu svo leikinn á vítalínunni á lokasekúndunum.
Samantha Murphy var lang stigahæst Hamarskvenna með 41 stig eða rúmlega 60% stiga liðsins. Nýi leikmaðurinn, Katherine Graham, skoraði 14 stig, Álfhildur Þorsteinsdóttir 8, Sóley Guðgeirsdóttir 3 og Marín Davíðsdóttir 2.