Hótel Selfoss sigraði á Guðjónsmótinu

Hótel Selfoss sigraði Myrru í úrslitaleik Guðjónsmótsins, árlegu firmamóti í innanhússknattspyrnu, sem haldið er á Selfossi til minningar um Guðjón Ægi Sigurðsson.

Tuttugu lið voru skráð til leiks en keppni hófst í morgun og er óhætt að segja að knattspyrnufólkið hafi sýnt misgóð tilþrif enda knattspyrnubakgrunnurinn misjafn, en margir eftirtektarverðir leikmenn tóku þátt í mótinu.

Leikið var í fjórum riðlum og komust efstu liðin í hverjum riðli áfram í úrslitakeppni. Á endanum fór það svo að Hótel Selfoss sigraði Myrru 3-1 í úrslitaleiknum og í leiknum um 3. sætið sigraði Sjóvá, meistararnir frá því í fyrra, FC Krulla með sömu markatölu.

Lið Domino’s fékk verðlaun fyrir bestu búningana og Thelma Sif Kristjánsdóttir var valin eftirtektarverðasti leikmaðurinn.

„Þetta er eintóm gleði, skemmtun, fjör og gaman sem lifir allan daginn – allt í anda Guðjóns,“ sagði Sævar Þór Gíslason, forsvarsmaður Guðjónsdagsins, í samtali við Sunnlenska.

Deginum er þó ekki nærri lokið því í kvöld koma keppendur, stuðningsmenn og aðrir saman í Hvíta húsinu þar sem haldinn verður dansleikur með hinu margrómaða Boltabandi.

Fyrri greinLeiðsögn um sýninguna „Ákall“
Næsta greinSætur sigur á útivelli