Selfoss tapaði naumlega gegn toppliði Hattar á útivelli þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfubolta í kvöld.
Það lá vel á Selfyssingum eftir ferðalagið til Egilsstaða, leikurinn fór rólega af stað en fyrri hálfleikur var í járnum og staðan var 42-38 í leikhléi.
Baráttan hélt áfram í 3. leikhluta þar sem bæði lið skoruðu mikið og í 4. leikhluta fóru leikar heldur að æsast. Á lokamínútunum skiptust liðin á um að hafa forystuna og Selfyssingar voru með pálmann í höndunum á síðustu sekúndunum. Tveimur stigum yfir, með boltann í höndunum, misstu þeir hann útaf þegar 14 sekúndur voru eftir og Höttur jafnaði 91-91 þegar sex sekúndur voru eftir. Dramað var ekki búið því Hattarmenn vörðu tvö skot frá Selfyssingum á lokasekúndunum og framlenging varð raunin.
Í henni áttu Hattarmenn meira á tanknum. Þeir náðu strax fimm stiga forystu og leiddu alla framlenginguna. Lokatölur urðu 107-99.
Gerald Robinson var sterkur hjá Selfyssingum með 28 stig og 15 fráköst en Gasper Rojko og Trevon Evans létu líka vel til sín taka í kvöld – ásamt fleirum.
Selfoss hefur nú 16 stig í 6. sæti deildarinnar en Höttur er áfram á toppnum með 28 stig.
Tölfræði Selfoss: Gerald Robinson 28/15 fráköst/6 stoðsendingar, Trevon Evans 23/5 fráköst/9 stoðsendingar, Vito Smojver 15/5 fráköst, Gasper Rojko 14/13 fráköst, Óli Gunnar Gestsson 13/4 fráköst, Arnar Geir Líndal 6.