Hraði og spenna í 74 marka leik

Hans Jörgen Ólafsson sækir að marki KA-U í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ungmennalið Selfoss fékk KA-U í heimsókn í Grill-66 deild karla í handbolta í kvöld. Eftir hörkuleik höfðu KA menn betur, 36-38.

Leikurinn var hraður og skemmtilegur, liðin skiptust á um að hafa forystuna í fyrri hálfleik en munurinn var aldrei mikill. Staðan var 18-18 í leikhléi og jafnræðið hélt áfram í seinni hálfleik.

Á síðasta korterinu reyndust KA menn hins vegar sterkari. Þeir náðu fimm marka forskoti þegar sjö mínútur voru eftir en þrátt fyrir góðan lokakafla Selfoss náðu heimamennirnir aðeins að minnka muninn í tvö mörk, þegar tvær mínútur voru eftir.

Sigurður Snær Sigurjónsson var markahæstur Selfyssinga með 11 mörk, Tryggvi Sigurberg Traustason skoraði 8/1, Hans Jörgen Ólafsson 6, Jason Dagur Þórisson og Gunnar Kári Bragason 4, Jón Þórarinn Þorsteinsson 2 og Sölvi Svavarsson 1.

Jón Þórarinn varði 16 skot í marki Selfoss og var með 30% markvörslu.

Fyrri greinÉg yrði frábær einræðisherra
Næsta greinÞægilegt hjá Selfyssingum – Hamar tapaði naumlega