Hrafnhildur Hanna og Elvar Örn íþróttafólk ársins

Handknattleiksfólkið Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Elvar Örn Jónsson, bæði úr Umf. Selfoss, voru í kvöld útnefnd íþróttakona og íþróttamaður Sveitarfélagsins Árborgar árið 2016.

Kjörinu var lýst á uppskeruhátíð íþrótta- og menningarnefndar Árborgar í hátíðarsal Fjölbrautaskóla Suðurlands í kvöld.

Hrafnhildur Hanna er lykilmaður í liði Selfoss sem varð í 8. sæti í Olísdeild kvenna á síðasta keppnistímabil. Í vetur er hún langmarkahæsti leikmaður deildarinnar með 96 mörk í tíu leikjum. Hún erfastamaður í A-landsliði kvenna, hefur spilað 20 landsleiki og skorað í þeim 47 mörk.

Hrafnhildur Hanna hlaut 189 stig í kjörinu og sigraði annað árið í röð. Önnur varð fimleikakonan Margrét Lúðvígsdóttir með 164 stig og þriðja taekwondokonan Ingibjörg Erla Grétarsdóttir með 189 stig.

Elvar Örn er sömuleiðis lykilmaður í karlaliði Selfoss sem tryggði sér sæti í Olís-deildinni í vor og hefur hann leikið frábærlega með liðinu í vetur og er meðal markahæstu leikmanna deildarinnar. Hann var fastamaður í U20 ára liði Íslands á árinu og einn besti leikmaður liðsins, sem varð í 7. sæti á Evrópumeistaramótinu í sumar.

Elvar Örn hlaut 189 stig í kjörinu, annar varð fimleikamaðurinn Rikharð Atli Oddsson og þriðji júdómaðurinn Egill Blöndal.

Golfklúbbur Selfoss hlaut Hvatningarverðlaun íþrótta- og menningarnefndar fyrir öflugt starf á undanförnum árum, þar sem meðal annars eru lögð mikil rækt við barna-, unglinga- og afrekskylfingastarf.

Einnig voru íþróttamenn sem unnu Íslands-, bikar- og deildarmeistaratitla á árinu heiðraðir en íþróttamenn úr sveitarfélaginu unnu hátt í fimmtíu titla á þessu ári.

Þá fengu afreksmenn úr Suðra, Golfklúbbi Selfoss og Ungmennafélagi Selfoss styrki úr afreks- og styrktarsjóðum íþróttafélaganna.


Páll Sveinsson, stjórnarmaður í Golfklúbbi Selfoss, tók við Hvatningarverðlaununum fyrir hönd félagsins. Kjartan Björnsson og Estelle Burgel veittu viðurkenninguna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinKumbaravogi lokað í mars
Næsta greinÁstusjóður afhendir nýja dróna