Hrafnhildur Hauksdóttir, leikmaður Selfoss, hefur verið valin í A-landslið kvenna í knattspyrnu sem mætir Póllandi í vináttulandsleik ytra þann 14. febrúar næstkomandi.
Þetta er í fyrsta skipti sem Hrafnhildur, sem er tvítug, er valin í leikmannahóp A-landsliðsins en hún hefur leikið 22 unglingalandsleiki og meðal annars verið fyrirliði U19 ára liðs Íslands.
Guðmunda Brynja Óladóttir, fyrirliði Selfoss, er einnig í landsliðshópnum, en hún er meðal leikreyndustu leikmanna hópsins og á að baki 10 A-landsleiki. Aðeins voru valdir leikmenn úr liðunum í Pepsi-deildinni í þetta verkefni.