Hamar og Stjarnan munu leika hreinan úrslitaleik um laust sæti í efstu deild kvenna í körfubolta á miðvikudagskvöld. Hamar tapaði illa í öðrum leik einvígisins gegn Stjörnunni í Garðabæ í dag, 61-45.
Hamar var ekki með í fyrri hálfleik en Stjarnan leiddi í leikhléinu, 33-20. Hvergerðingar náðu hins vegar að vinna upp forskot Stjörnunnar í 3. leikhluta og í upphafi 4. leikhluta var staðan orðin 42-41, Stjörnunni í vil.
Nær komust Hamarskonur ekki því þær skoruðu einungis fjögur stig á síðustu níu mínútum leiksins og Stjarnan vann öruggan sigur.
Álfhildur Þorsteinsdóttir var best hjá Hamri en hún tók 15 fráköst í leiknum. Jenný Harðardóttir var stigahæst með 15 stig, Katrín Össurardóttir og Marín Davíðsdóttir skoruðu báðar 9 stig, Dagný Lísa Davíðsdóttir 5, Íris Ásgeirsdóttir 4 og Bjarney Ægisdóttir 3.