Hrikaleg spenna í Hveragerði

Kanalausir Hvergerðingar urðu fyrstir til að leggja topplið KFÍ að velli í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur voru 81-80 í hrikalega spennandi leik í Hveragerði.

Hamar byrjaði betur og komst í 9-2 en gestirnir svöruðu með átta stigum í röð og komust yfir, 9-10. Þeir héldu forystunni út leikhlutann en staðan að honum loknum var 13-16. Liðin tóku vel á því í 2. leikhluta og skiptust sjö sinnum á að hafa forystuna en Hamar skoraði síðustu fimm stigin og leiddi í hálfleik, 38-36.

Hamar jók forskot sitt hægt og bítandi í 3. leikhluta þar sem munurinn var mestur tólf stig, 63-51, en staðan var 67-57 þegar síðasti fjórðungurinn hófst.

Þar tóku gestirnir heldur betur við sér og þegar þrjár og hálf mínúta var eftir af leiknum höfðu þeir jafnað, 72-72, en Hamar skoraði aðeins fimm stig á fyrstu sex og hálfri mínútu leikhlutans gegn fimmtán stigum gestanna.

Lokamínútan var æsispennandi en Hamar var alltaf skrefi á undan og síðustu stig leiksins skoruðu gestirnir af vítalínunni á síðustu sekúndu leiksins.

Louie Kirkman var stigahæstur hjá Hamri með 19 stig, Halldór Gunnar Jónsson skoraði 14, Svavar Páll Pálsson 13 og Ragnar Nathanaelsson átti fínan leik með 12 stig. Lárus þjálfari Jónsson skoraði 10 stig.

Þetta var fyrsta tap KFÍ í vetur en með sigrinum fór Hamar upp í 3. sæti deildarinnar.

Fyrri greinStjórnsýslukæru golfklúbba vísað frá
Næsta greinFljúgandi hálka í uppsveitunum