Grindavík hafði betur í fyrsta leiknum gegn Þór Þorlákshöfn í úrslitaeinvígi Iceland Express-deildar karla í körfubolta. Lokatölur í Grindavík voru 93-89.
Þórsarar voru vankaðir í upphafi leiks og heimamenn náðu strax tíu stiga forskoti. Þeir grænu lifnuðu við undir lok 1. leikhluta og eftir þriggja stiga skothríð Þórs var staðan að honum loknum 29-26.
Grindvíkingar höfðu frumkvæðið í 2. leikhluta og spiluðu frábæra vörn sem tryggði þeim tólf stiga forskot í hálfleik, 56-44.
Síðari hálfleikur var jafn og spennandi. Grindvíkingar náðu mest fjórtán stiga forskoti en Þórsarar eltu þá uppi og náðu að minnka muninn niður í tvö stig þegar mínúta var eftir af leiknum. Þórsarar gerðu hins vegar mistök í síðustu sóknum sínum og hittu illa og Grindavík tryggði sér sigurinn af vítalínunni þegar átta sekúndur voru eftir.
Blagoj Janev og Darrin Govens voru stigahæstur Þórsara með 17 stig. Joseph Henley og Guðmundur Jónsson skoruðu 15 stig, Grétar Ingi Erlendsson 11, Darri Hilmarsson 9 og Baldur Þór Ragnarsson 5.
Áhorfendur í Grindavík voru 794 en næsti leikur liðanna verður í Þorlákshöfn á fimmtudagskvöld kl. 19:15.