Selfyssingar töpuðu dýrmætum stigum í toppbaráttu Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld þegar KR kom í heimsókn á JÁVERK-völlinn. Lokatölur urðu 1-1.
„Mér fannst þetta lélegt, mjög lélegt. Þetta eru hrikalega dýr stig að tapa og það bítur mann í rassinn að halda að menn geti fengið eitthvað ókeypis,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Við hefðum þurft að klára eitthvað af þessum færum sem við fengum, en það sem mér fannst aðallega vanta upp á var rétt hugarfar. Við byrjuðum af svakalega miklum krafti og þegar við fundum að við höfðum yfirburði þá fórum við að slaka á. Þær héldu að þetta yrði auðvelt í framhaldinu og þá er farið að gera hluti sem ekki var lagt upp með,“ sagði Gunnar sem var sérstaklega óánægður með fyrri hálfleikinn hjá sínu liði. Hann segist þó ekki hafa tekið hárblásararæðu á liðið í hálfleik.
„Nei, það virkar ekki í nútíma þjálffræði. Það þarf að eyða þessum fimmtán mínútum í eitthvað gáfulegt og leita að einhverjum lausnum. Við náðum í stigið í seinni hálfleik og það er það jákvæða. Eins og fyrri hálfleikurinn spilaðist þá var það alls ekki sjálfgefið,“ sagði Gunnar en þetta eru fyrstu stigin sem Selfoss tapar á heimavelli í sumar. Gunnar hefur þó lag á því að finna jákvæðar hliðar á málunum.
„Jú, þetta eru fyrstu töpuðu stigin á heimavelli í ár. En við horfum á það þannig að við höfum ekki enn tapað á heimavelli. Einhvern tímann þurftum við að gera jafntefli í sumar og við þurfum þá bara að finna okkur einhvern annan leik til þess að vinna í staðinn.“
Víti í súginn á 2. mínútu
Selfyssingar hefðu getað gert út um leikinn snemma leiks en þeim voru ákaflega mislagðir fætur í vítateig KR-inga í kvöld.
Strax á 2. mínútu braut Hugrún Ólafsdóttir á Donna-Kay Henry innan vítateigs KR og Selfoss fékk dæmda vítaspyrnu. Guðmunda Óladóttir fór á punktinn og þrumaði knettinum í þverslána. Á eftir fylgdi stórsókn Selfoss næstu mínúturnar en inn vildi boltinn ekki.
KR átti sína fyrstu almennilegu sókn á 20. mínútu og hún var heldur betur árangursrík. Hulda Jónsdóttir prjónaði sig þá snyrtilega inn í vítateiginn og skoraði með góðu skoti, 0-1.
Strax í næstu sókn fengu Selfyssingar aukaspyrnu úti á miðjum velli. Anna María Friðgeirsdóttir tók spyrnuna en Agnes Þóra Árnadóttir, markvörður KR, varði boltann í þverslána. Frákastið barst til Dagnýjar Brynjarsdóttur sem skallaði boltann yfir. Skömmu síðar átti svo Erna Guðjónsdóttir skalla yfir eftir eina af mörgum góðum fyrirgjöfum Guðmundu.
Leikur Selfoss fjaraði út eftir þetta og KR-ingar efldust í trúnni. Baráttan var mikil á miðsvæði vallarins og fátt um færi fram að leikhléi.
Færin komu á færibandi
Selfyssingar voru áfram sterkari aðilinn í síðari hálfleik og Erna Guðjónsdóttir og Dagný komust báðar í prýðileg færi á fyrsta korterinu. Á 64. mínútu small aukaspyrna Önnu Maríu í stönginni á marki KR og í framhaldinu komu færin, já, á færibandi.
Spennan jókst eftir því sem leið á leikinn og ljóst að eitthvað hlyti undan að láta í KR-vörninni. Það var ekki fyrr en á 77. mínútu að Selfyssingar náðu að skora. Henry pressaði þá varnarmann KR og komst upp í hægra hornið þar sem hún átti prýðilega fyrirgjöf. Magdalena Reimus var vel staðsett í teignum og skoraði með laglegu skoti, 1-1.
Selfossliðinu tókst ekki að nýta yfirburði sína á lokakaflanum því KR-ingar gáfu ekki fleiri færi á sér og niðurstaðan varð því 1-1 jafntefli.