Hlynur Geir Hjartarson lék best íslensku kylfinganna á HM áhugamanna í golfi í Argentínu í gær.
Hlynur lék hringinn á pari vallarins, 72 höggum, við mjög erfiðar aðstæður. Ólafur Björn Loftsson lék á einu höggi yfir pari og Guðmundur Ágúst Kristjánsson lék á 76 höggum.
„Ég er hrikalega sáttur með hringinn enda voru aðstæður rosalega erfiðar. Það var hávaða rok fyrstu þrjár holurnar og síðan vorum við flautaðir inn vegna eldinga. Þegar við hófum leik aftur þá fór að rigna alveg rosalega þannig að ég er rosalega ánægður með að ná parinu,“ sagði Hlynur í samtali við sunnlenska.is að loknum öðrum hring.
Íslenska liðið er á sex höggum yfir pari eftir tvo keppnisdaga í 16.-21. sæti. Sú staða er reyndar ekki alveg rétt því nokkrar sveitir eiga eftir að ljúka öðrum hring. Keppni var frestað í gær vegna veðurs og nú hefur einn keppnisdagur verið felldur út svo að Hlynur og félagar fara ekki aftur út á völl fyrr en á morgun.
Veðurspáin fyrir morgundaginn er reyndar ekki mjög hagstæð en mótshaldarar ætla að reyna að nýta tímann og spila meðan tækifæri gefst svo hægt verði að ljúka mótinu á morgun.