Selfyssingar gengu hrikalega svekktir af velli í dag eftir 31-32 tap gegn ÍBV í Olís-deild kvenna í handknattleik í Vallaskóla.
Selfossliðið var betri aðilinn stærstan hluta leiksins en liðið náði mest sex marka forystu í fyrri hálfleik, 15-9. Staðan var 19-14 í leikhléi.
Í síðari hálfleik komst ÍBV betur inn í leikinn en Selfoss hélt góðu forskoti allt þar til tíu mínútur voru eftir. Þá hættu hlutirnir að ganga upp hjá þeim vínrauðu og ÍBV breytti stöðunni úr 29-24 í 30-32 á lokamínútunni.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 9/3 mörk en besti leikmaður Selfoss í dag var Perla Albertsdóttir sem skoraði 8 mörk og lék frábæra vörn. Adina Ghidoarca skoraði 7 mörk, Dijana Radojevic 4, Carmen Palamariu 2 og Arna Kristín Einarsdóttir 1. Katrín Ósk Magnúsdóttir átti góðan dag í markinu hjá Selfyssingum og varði 14 skot.
Selfoss er áfram í 7. sæti deildarinnar með 8 stig. Næsti leikur liðsins er gegn Stjörnunni í undanúrslitum bikarkeppninnar, næstkomandi fimmtudag kl. 17:15 í Laugardalshöllinni.