Hrunamenn gerðu ekki góða ferð á Blönduós í dag þar sem þeir mættu Kormáki/Hvöt í 4. deild karla í knattspyrnu. Heimamenn unnu stórsigur.
Kormákur/Hvöt komst yfir strax á 3. mínútu leiksins og bætti svo við tveimur mörkum á tíu mínútna kafla um miðjan fyrri hálfleikinn. Staðan var 3-0 í leikhléi.
Síðari hálfleikurinn var Hrunamönnum erfiður. Kormákur/Hvöt bætti við fjórum mörkum á fyrstu fimmtán mínútunum og staðan þá orðin 7-0. Leikurinn róaðist aðeins eftir það en Hrunamenn urðu fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 75. mínútu og reyndist það síðasta mark leiksins. Lokatölur 8-0.
Hrunamenn eru áfram í 7. sæti C-riðils með 1 stig.