Hrunamenn unnu botnlið ÍA með minnsta mun í 1. deild karla í körfubolta í kvöld á meðan Hamar tapaði gegn Haukum og Selfoss tapaði fyrir Sindra.
Hrunamenn tóku á móti ÍA á Flúðum í jöfnum og spennandi leik. Staðan í hálfleik var 48-49, gestunum í vil. Hrunamenn komust yfir í 3. leikhluta en ÍA svaraði fyrir sig í 4. leikhluta og hafði forystuna, 80-87, þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir. Þá skelltu heimamenn í lás í vörninni og gengu á lagið sóknarlega. Lokamínútan var æsispennandi en Kristófer Tjörvi Einarsson tryggði Hrunamönnum sigurinn með tveggja stiga körfu þegar tólf sekúndur voru eftir, 93-92. Kent Hanson og Clayton Ladine voru að venju sprækastir hjá Hrunamönnum. Ladin skoraði 28 stig og sendi 10 stoðsendingar, auk þess að taka 7 fráköst. Hanson skoraði 26 stig og tók 11 fráköst.
Á Selfossi mættust Selfoss og Sindri og þar reyndust gestirnir sterkari. Þeir leiddu 51-64 í hálfleik og munurinn var orðinn 23 stig í 3. leikhluta, 56-79. Selfyssingar klóruðu í bakkann á lokakaflanum en það var of lítið og of seint. Lokatölur í Gjánni urðu 97-114. Trevon Evans var með veglegt framlag fyrir Selfoss í kvöld, skoraði 31 stig, sendi 10 stoðsendingar og tók 6 fráköst.
Hamar átti erfitt uppdráttar gegn toppliði Hauka á útivelli í kvöld. Heimamenn tóku leikinn strax í sínar hendur og leiddu í leikhléi, 52-34. Munurinn jókst enn frekar í 3. leikhluta og lokatölur leiksins urðu 91-59. Björn Ásgeir Ásgeirsson var stigahæstur hjá Hamri með 15 stig og 8 fráköst.
Staðan í deildinni er þannig að Selfoss er í 6. sæti með 22 stig, Hrunamenn eru í 8. sæti með 16 stig og Hamar í 9. sæti með 8 stig.
Tölfræði Hrunamanna: Clayton Ladine 28/7 fráköst/10 stoðsendingar, Kent Hanson 26/11 fráköst, Yngvi Freyr Óskarsson 20/6 fráköst, Kristófer Tjörvi Einarsson 11/7 fráköst, Þórmundur Smári Hilmarsson 4/4 fráköst, Elís Arnar Jónsson 2, Eyþór Orri Árnason 2/4 fráköst.
Tölfræði Hamars: Björn Ásgeir Ásgeirsson 15/8 fráköst, Dareial Franklin 11, Alfonso Birgir Gomez 10, Benoný Svanur Sigurðsson 9, Haukur Davíðsson 4, Daníel Sigmar Kristjánsson 4, Maciek Klimaszewski 4, Daði Berg Grétarsson 2/6 fráköst/10 stoðsendingar.
Tölfræði Selfoss: Trevon Evans 31/6 fráköst/10 stoðsendingar, Gerald Robinson 19/4 fráköst, Gasper Rojko 14/8 fráköst, Vito Smojver 10, Ísar Freyr Jónasson 10, Birkir Hrafn Eyþórsson 6, Styrmir Jónasson 5, Sigmar Jóhann Bjarnason 2.