Hrunamenn og Selfoss unnu leiki sína í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Hrunamenn lögðu Skallagrím en Selfoss lagði Sindra.
Hrunamenn tóku á móti Skallagrími á Flúðum í æsispennandi leik. Heimamenn tóku af skarið í 2. leikhluta og leiddu 56-44 í hálfleik, eftir stórleik Corey Taite sem skoraði 32 stig í fyrri hálfleik. Hrunamenn sváfu á verðinum í 3. leikhluta, Skallagrímur skoraði 12 fyrstu stigin og jafnaði 56-56. Lokakafli leiksins var æsispennandi en Hrunamenn voru sterkari og sigruðu að lokum 88-86.
Taite var frábær hjá Hrunamönnum, með framlag upp á 55. Hann skoraði 49 stig, tók 9 fráköst og sendi 7 stoðsendingar. Florijan Jovanov var sömuleiðis öflugur með 16 stig og 13 fráköst.
Það var minni spenna á Selfossi þar sem heimamenn unnu nokkuð öruggan sigur á Sindra frá Hornafirði, en þetta var fyrsti sigur Selfoss í deildinni. Selfyssingar byrjuðu vel í leiknum og voru komnir með góða forystu í leikhléi, 51-30. Þeir héldu síðan Sindramönnum í öruggri fjarlægð í seinni hálfleik og juku muninn smátt og smátt. Lokatölur leiksins urðu 99-71.
Kristijan Vladovic var bestur í liði Selfoss með 22 stig og 7 stoðsendingar og Aljaz Vidmar og Terrenve Motley skiluðu sömuleiðis góðu framlagi með 13 stig hvor og samtals 24 fráköst.
Hrunamenn eru nú í 3. sæti deildarinnar með 4 stig en Selfoss er í 7. sæti með 2 stig.
Tölfræði Hrunamanna: Corey Taite 49/9 fráköst/7 stoðsendingar, Florijan Jovanov 16/13 fráköst, Karlo Lebo 13/8 fráköst, Dagur Úlfarsson 4, Eyþór Orri Árnason 2/7 fráköst, Halldór F. Helgason 2, Þórmundur Smári Hilmarsson 2, Aron Ernir Ragnarsson 0, Hringur Karlsson 0.
Tölfræði Selfoss: Kristijan Vladovic 22/4 fráköst/7 stoðsendingar, Aljaz Vidmar 13/10 fráköst, Terrence Motley 13/14 fráköst, Arnór Bjarki Eyþórsson 13/5 fráköst, Ari Gylfason 12, Svavar Ingi Stefánsson 9, Sveinn Búi Birgisson 9, Owen Scott Young 4, Gunnar Steinþórsson 3, Gregory Tchernev-Rowland 1, Sigmar Jóhann Bjarnason 0, Bjarki Friðgeirsson 0.