Hrunamenn og Selfyssingar töpuðu leikjum sínum í 1. deild karla í körfubolta í gærkvöldi. Hrunamenn heimsóttu Skallagrím og Selfyssingar mættu KR á útivelli.
Leikur Skallagríms og Hrunamanna var í járnum í fyrri hálfleik. Heimamenn byrjuðu betur og leiddu 21-18 eftir 1. leikhluta. Hrunamenn svöruðu fyrir sig í 2. leikhluta og staðan var 41-41 í hálfleik. Heimamenn reyndust sterkari í seinni hálfleik og voru skrefinu á undan allan tímann, þó að munurinn væri ekki mikill. Lokatölur urðu 89-83. Aleksi Liukko var stigahæstur Hrunamanna með 19 stig og 24 fráköst og Friðrik Heiðar Vignisson skoraði 10 stig.
Brekkan var talsvert brattari hjá Selfyssingum sem mættu KR í Frostaskjólinu. KR-ingar voru sterkari allan tímann og staðan var 49-34 í leikhléi. Munurinn jókst mikið í 3. leikhluta og KR sló ekkert af þegar leið á leikinn og lokatölur urðu 109-68. Micheal Asante var stigahæstur Selfyssinga með 28 stig og 13 fráköst, Ísak Júlíus Perdue skoraði 12 stig og Birkir Hrafn Eyþórsson skoraði 11 stig og tók 11 fráköst.