Hrunamenn og Selfoss töpuðu

Michael Asante. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hrunamenn og Selfyssingar töpuðu leikjum sínum í 1. deild karla í körfubolta í gærkvöldi. Hrunamenn heimsóttu Skallagrím og Selfyssingar mættu KR á útivelli.

Leikur Skallagríms og Hrunamanna var í járnum í fyrri hálfleik. Heimamenn byrjuðu betur og leiddu 21-18 eftir 1. leikhluta. Hrunamenn svöruðu fyrir sig í 2. leikhluta og staðan var 41-41 í hálfleik. Heimamenn reyndust sterkari í seinni hálfleik og voru skrefinu á undan allan tímann, þó að munurinn væri ekki mikill. Lokatölur urðu 89-83. Aleksi Liukko var stigahæstur Hrunamanna með 19 stig og 24 fráköst og Friðrik Heiðar Vignisson skoraði 10 stig.

Brekkan var talsvert brattari hjá Selfyssingum sem mættu KR í Frostaskjólinu. KR-ingar voru sterkari allan tímann og staðan var 49-34 í leikhléi. Munurinn jókst mikið í 3. leikhluta og KR sló ekkert af þegar leið á leikinn og lokatölur urðu 109-68. Micheal Asante var stigahæstur Selfyssinga með 28 stig og 13 fráköst, Ísak Júlíus Perdue skoraði 12 stig og Birkir Hrafn Eyþórsson skoraði 11 stig og tók 11 fráköst.

Fyrri greinKonur fá ekki að fara í sund á þriðjudaginn
Næsta greinGuðmundur gerður að heiðursfélaga og Gissur sæmdur gullmerki