Hrunamenn og Selfyssingar töpuðu leikjum sínum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Hrunamenn fengu ÍR í heimsókn og á Selfossi voru Skagamenn mættir í bæinn.
ÍR-ingar reyndust sterkari í leiknum á Flúðum, þeir leiddu 22-34 eftir 1. leikhluta og juku forskotið smátt og smátt allan leikinn. Staðan í hálfleik var 43-61 en þó að varnarleikur Hrunamanna hafi batnað í seinni hálfleik náðu þeir ekki að brúa bilið og ÍR sigraði örugglega 92-116.
Chancellor Calhoun-Hunter var stigahæstur Hrunamanna með 23 stig, Aleksi Liukko skoraði 18 stig og tók 12 fráköst, Sam Burt skoraði 12 og Eyþór Orri Árnason 11 auk þess sem hann sendi 8 stoðsendingar.
Skagamenn sterkari í Gjánni
Selfyssingar fundu ekki taktinn í Gjánni í fyrri hálfleik og ÍA leiddi 25-42 í leikhléi. Leikurinn var jafnari í seinni hálfleik og Selfyssingar náðu aðeins að klóra í bakkann í 4. leikhluta. Munurinn varð minnstur átta stig undir lokin en sigur Skagamanna var öruggur, 69-79.
Vojtech Novak var stigahæstur Selfyssinga með 24 stig og 9 fráköst og Birkir Hrafn Eyþórsson skoraði 21 en þeir voru einu leikmenn Selfoss sem skoruðu meira en 6 stig.
Hrunamenn og Selfoss eru í 9.-10. sæti deildarinnar, bæði lið með 4 stig.