Hrunamenn unnu Suðurlandsslaginn gegn Hamri og Selfoss vann góðan sigur á Álftanesi í kvöld í 1. deild karla í körfubolta.
Hamar tók á móti Hrunamönnum í Hveragerði og þar voru það gestirnir sem höfðu frumkvæðið í fyrri hálfleik. Staðan í leikhléi var 50-59 og Hrunamenn fóru síðan langt með að landa sigrinum með frábærum kafla í 3. leikhluta. Staðan að honum loknum var 64-88 og eftirleikurinn nokkuð auðveldur fyrir Hrunamenn. Lokatölur 80-101. Kent Hanson og Karlo Lebo voru allt í öllu hjá Hrunamönnum og skoruðu þeir tveir samtals 60 stig. Hjá Hamri var Dareial Franklin stigahæstur með 22 stig.
Það var hörkuslagur á Álftanesi þar sem Selfoss var í heimsókn. Fyrri hálfleikur var í járnum en heimamenn voru skrefinu á undan og leiddu í leikhléi, 47-42. Munurinn jókst í tólf stig í 3. leikhluta en Selfoss átti frábæra endurkomu í 4. leikhluta. Þeir gerðu 16-2 áhlaup í upphafi leikhlutans og fylgdu því eftir með fínum lokakafla svo að lokatölur urðu 87-94. Trevon Evans var með svakalegt framlag fyrir Selfyssinga en hann skoraði 43 stig í kvöld.
Eftir leiki kvöldsins er staðan í deildinni þannig að Selfoss er í 6. sæti með 16 stig, Hrunamenn eru í 8. sæti með 12 stig og Hamar er í 9. sæti með 6 stig.
Tölfræði Hamars: Dareial Franklin 22/5 fráköst/5 stolnir, Björn Ásgeir Ásgeirsson 13, Benoný Svanur Sigurðsson 12/5 fráköst, Haukur Davíðsson 9/5 fráköst, Alfonso Birgir Söruson Gomez 9, Maciek Klimaszewski 7/5 fráköst, Daníel Sigmar Kristjánsson 3, Baldur Freyr Valgeirsson 3, Sigurður Dagur Hjaltason 2, Daði Berg Grétarsson 5 fráköst, Kristinn Ólafsson 4 fráköst.
Tölfræði Hrunamanna: Kent Hanson 31/7 fráköst, Karlo Lebo 29/8 fráköst, Clayton Ladine 14/7 fráköst/7 stoðsendingar, Eyþór Orri Árnason 9, Yngvi Freyr Óskarsson 4/10 fráköst/5 stoðsendingar, Kristófer Tjörvi Einarsson 4, Hringur Karlsson 4/4 fráköst, Óðinn Freyr Árnason 3, Dagur Úlfarsson 3.
Tölfræði Selfoss: Trevon Evans 43/5 fráköst/6 stoðsendingar/6 stolnir, Gerald Robinson 17/14 fráköst/6 stoðsendingar, Gasper Rojko 12/7 fráköst/6 stoðsendingar, Ísar Freyr Jónasson 12/5 fráköst, Vito Smojver 6, Óli Gunnar Gestsson 4/5 fráköst, Austin Magnus Bracey 4 fráköst.