Hrunamenn sóttu topplið Hattar heim í 1. deild karla í körfubolta í kvöld.
Leikurinn var jafn og spennandi í fyrri hálfleik, Hrunamenn voru skrefinu á undan framan af en Höttur náði forystunni fyrir leikhlé og staðan var 48-42 í hálfleik.
Í seinni hálfleiknum fór að halla undan fæti hjá Hrunamönnum. Snemma í seinni hálfleik gerði Höttur 17-3 áhlaup og eftir það var staðan orðin 71-54. Hrunamenn náðu ekki að svara fyrir sig og Hattarmenn juku forskotið enn frekar í 4. leikhluta. Lokatölur urðu 111-86.
Kent Hanson og Clayton Ladine voru atkvæðamestir hjá Hrunamönnum, Hanson skoraði 22 stig og Ladine 21.
Hrunamenn eru í 8. sæti deildarinnar með 12 stig en Hattarmenn eru í toppsætinu með 30 stig.
Tölfræði Hrunamanna: Kent Hanson 22/8 fráköst, Clayton Ladine 21/5 fráköst/7 stoðsendingar, Karlo Lebo 16/6 fráköst, Eyþór Orri Árnason 11, Yngvi Freyr Óskarsson 7, Dagur Úlfarsson 4, Kristófer Tjörvi Einarsson 3/7 fráköst, Páll Magnús Unnsteinsson 2.