Keppni í 1. deild karla í körfubolta hófst í kvöld. Stórleikur umferðarinnar var viðureign Hrunamanna og Selfoss.
Hrunamenn byrjuðu leikinn af miklum krafti, þeir komust í 24-10 í 1. leikhluta og leiddu að honum loknum, 31-14. Það má segja að þarna hafi Hrunamenn lagt grunninn að sigrinum því leikurinn var jafn það sem eftir var en Selfyssingar náðu ekki að minnka muninn að neinu ráði fyrr en undir lok leiks. Staðan í leikhléi var 58-40 en þegar upp var staðið skildu fjórtán stig liðin að, 95-81.
Corey Taite var besti maður vallarins. Hann skoraði 42 stig fyrir Hrunamenn og sendi 10 stoðsendingar. Orri Ellertsson kom næstur honum með 16 stig. Hjá Selfyssingum var Gunnar Steinþórsson stigahæstur með 15 stig og 6 stoðsendingar en Darryl Palmer skoraði 14 stig og tók 11 fráköst.
Hamar lenti í basli með Sindra frá Hornafirði á heimavelli í Hveragerði. Hvergerðingar skoruðu fyrstu tíu stig leiksins en þá svaraði Sindri með 21-3 áhlaupi. Sindramenn höfðu frumkvæðið í framhaldinu og leiddu 37-43 í leikhléi. Hamar tók stjórnina í seinni hálfleik en alltaf komu Sindramenn til baka og það var ekki fyrr en í upphafi 4. leikhluta að Hamar náði að slíta sig fjórtán stigum frá gestunum. Hamar sigraði að lokum 101-92.
Anthony Lee var öfluguu hjá Hamri með 27 stig og 13 fráköst og Jose Aldana skoraði 23 stig.
Tölfræði Hrunamanna: Corey Taite 42/6 fráköst/10 stoðsendingar, Orri Ellertsson 16, Jasmin Perkovic 12/14 fráköst, Karlo Lebo 11, Þórmundur Smári Hilmarsson 6, Ísak Sigurðarson 4/5 fráköst, Eyþór Orri Árnason 2/5 stoðsendingar, Halldór F. Helgason 2.
Tölfræði Selfoss: Gunnar Steinþórsson 15/4 fráköst/6 stoðsendingar, Darryl Palmer 14/11 fráköst, Aljaz Vidmar 13/5 fráköst, Arnór Bjarki Eyþórsson 12, Sveinn Búi Birgisson 9/6 fráköst, Sigmar Jóhann Bjarnason 7, Bragi Guðmundsson 4, Ragnar Magni Sigurjónsson 3, Svavar Ingi Stefánsson 2, Owen Young 2/5 stoðsendingar.
Tölfræði Hamars: Anthony Lee 27/13 fráköst/5 stoðsendingar, Jose Aldana 23/7 stoðsendingar, Ragnar Jósef Ragnarsson 20/5 fráköst/5 stoðsendingar, Ruud Lutterman 18/11 fráköst, Steinar Snær Guðmundsson 11, Pálmi Geir Jónsson 2/8 fráköst, Maciek Klimaszewski 4 fráköst.