Umf. Hrunamanna hefur stofnað menntunar- og afrekssjóð, Bjarkasjóðinn. Sjóðurinn er nefndur eftir Matthíasi Bjarka Guðmundssyni, fyrrum formanni UMFH, sem lést fyrr á árinu 43 ára gamall.
Bjarki var sönn fyrirmynd að íþróttamanni innan sem utan vallar, algjör bindismaður á áfengi og tóbak og stundaði æfingar og keppni af mikilli samviskusemi og elju. Meðal íþrótta sem hann stundaði snemma á ferlinum voru sund og frjálsar íþróttir en svo fór að blakið tók yfir og átti hann langan og glæsilegan feril í íþróttinni bæði með Þrótti Reykjavík og sem landsliðsmaður og síðar sem þjálfari beggja liða.
Hann endaði svo ferilinn á heimaslóðum sem leikmaður og þjálfari Hrunamanna og á sinn þátt í því að þeir hafa orðið HSK meistarar síðastliðin 12 ár.
Sjóðnum er ætlað að styrkja unga og upprennandi félaga UMFH og einnig að mennta þjálfara félagsins.