Lið Hrunamanna og Laugdæla varð í gærkvöldi deildarmeistari í 2. deild karla í körfubolta með því að leggja nágranna sína í Gnúpverjum að velli í íþróttahúsinu á Flúðum, 101-73.
Heimamenn tóku leikinn í sínar hendur strax í upphafi og náðu góðu forskoti, 22-7. Staðan var 32-18 að loknum 1. leikhluta. Munurinn varð mestur 25 stig í 2. leikhluta, 50-25, en þá náðu Gnúpverjar góðu áhlaupi og minnkuðu muninn í 54-38 fyrir leikhlé.
Hrunamenn/Laugdælir gerðu svo endanlega út um leikinn í 3. leikhluta þar sem þeir náðu 31 stigs forystu, 80-49. Þrátt fyrir að öll spenna væri farin úr leiknum var síðasti fjórðungurinn hin besta skemmtun og góð tilþrif sáust.
Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, afhenti Hrunamönnum/Laugdælum sigurlaunin í leikslok og var deildarmeisturunum vel fagnað, en bekkurinn var þéttsetinn í íþróttahúsinu.
Þrátt fyrir tapið geta Gnúpverjar vel við unað en þeir fara sömuleiðis upp í 1. deild og hafa farið upp um tvær deildir á tveimur árum.
Stigahæstur heimamanna var Florijan Jovanov með 32 stig og Russell Johnson var með 18. Hjá Gnúpverjum var Hraunar Guðmundsson stigahæstur með 15 stig og Ásgeir Sigurður Nikulásson setti 12 stig.