Á mótsslitum 17. Unglingalandsmót UMFÍ á Sauðárkróki í gærkvöldi var tilkynnt að Héraðssambandið Skarphéðinn hefði hreppt Fyrirmyndarbikarinn.
Fyrirmyndarbikarinn var gefinn af Íþróttanefnd ríkisins og er viðurkenning þess sambandsaðila UMFÍ sem sýnt hefur eftirfarandi atriði. Góða umgengni á keppnisstöðum, tjaldsvæði og á almennum svæðum mótsdagana. Háttvísi og prúða framgöngu, m.a. í keppni og við inngöngu á setningu mótsins.
Alla mótsdagana er nefnd að störfum sem fylgjast með keppendum og öðrum gestum sambandsaðila UMFÍ og metur frammistöðu þeirra út frá ofangreindum þáttum. Formaður UMFÍ, formaður unglingalandsmótsnefndar og formaður þess sambandsaðila UMFÍ sem heldur mótið hverju sinni ákveða valið á fyrirmyndarliði Unglingalandsmótsins.