HSK mun standa fyrir fjölskyldugöngu á Vatnsdalsfjall í Rangárþingi fimmtudaginn 18. júní nk. og hefst gangan kl. 19:00.
Gengið verður af stað frá bæjarhlaðinu í Vatnsdal. Allir eru velkomnir í gönguna og það kostar ekkert að taka þátt.
Vatnsdalsfjall (351m) er grasi gróið fjall í Rangárþingi sem rís að baki bæjarstæðinu í Vatnsdal.
Til að komast að fjallinu er best að fara frá Hvolsvelli inn Fljótshlíðarveg nr. 261. Eftir um 8 km akstur frá Hvolsvelli er beygt inn Vatndalsveg nr. 2655 og ekið framhjá Tumastöðum og Tungu. Þaðan er um 5 km akstur að bænum Vatnsdal. Best er ganga á fjallið frá bæjarhlaðinu. Uppi á fjallinu er vatn, sem nefnist Vatnsdalsvatn.
Í námunda við Vatnsdalsfjall er Þríhyrningur þar sem m.a. gerðust ýmsir atburðir sem fram koma í Njálssögu.
Póstkassa verður komið fyrir á fjallinu og gefst göngufólki tækifæri á að ganga á fjallið í sumar og taka þátt í verkefninu Fjölskyldan á fjallið.