HSK sækir um ULM 2017 og 50+ árið 2016

Á stjórnarfundi UMFÍ sem haldinn verður í dag, fimmtudag mun stjórn UMFÍ taka ákvörðun um hvar Landsmót UMFÍ 50+ árið 2016 og Unglingalandsmót UMFÍ árið 2017 verða haldin.

Þrjú sveitarfélög á sambandsvæði HSK höfðu samband við stjórn HSK nokkru fyrir umsóknarfrest og sýndu áhuga á því að fá til sín mót og koma að umsókn með HSK um að halda umrædd mót.

Sveitarfélagið Ölfus óskaði eftir því að fá til sín bæði mótin, Sveitarfélagið Árborg vildi fá unglingalandsmót og Hveragerðisbær vildi fá 50+ mótið. Stjórn HSK ákvað að senda inn samtals fjórar umsóknir til UMFÍ vegna mótanna tveggja.

Fimm umsóknir bárust um að halda Landsmót 50+ árið 2016. Tvær frá HSK með mótsstaðina Hveragerði og Þorlákshöfn, HSV með Ísafjörð sem mótsstað, UMFG með Grindavík sem mótsstað og UÍA með Neskaupsstað sem mótsstað.

Fjórar umsóknir bárust vegna Unglingalandsmóts 2017. Tvær frá HSK með mótsstaðina Selfoss og Þorlákshöfn, UMSE með Dalvík sem mótsstað og UÍA með Egilsstaði sem mótsstað.

Þess má geta að UMFÍ mót hafa verið haldin á öllum þessum stöðum nema Neskaupsstað, reyndar fór blakkeppni landsmótsins 2001 fram þar. Þá eru 65 ár síðan mót var haldið í Hveragerði, en 7. Landsmót UMFÍ var haldið í Hveragerði 2. – 3. júlí 1949.

Ákvörðun stjórnar UMFÍ um mótsstað fyrir mótið 2016 verður tilkynnt á Landsmóti 50+ á Húsavík síðar í mánuðinum og mótsstaður ULM 2017 verður kunngjörður á Unglingalandsmótinu á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina.

Fyrri greinMyndstef heiðrar Knút
Næsta greinVilborg vann besta afrek mótsins