HSK sækir um ULM og Landsmót 50+

Héraðssambandið Skarphéðinn hefur sent inn þrjár umsóknir vegna Unglingalandsmóta UMFÍ og Landsmóts 50 ára og eldri á næstu árum.

Í apríl auglýsti stjórn Ungmennafélags Íslands eftir umsóknum frá sambandsaðilum UMFÍ um að taka að sér undirbúning og framkvæmd 7. Landsmóts UMFÍ 50+ árið 2017 og 21. Unglingalandsmóts UMFÍ sem haldið verður um verslunarmannahelgina 2018.

Í framhaldinu höfðu þrjú sunnlensk sveitarfélög samband við stjórn HSK og sýndu áhuga á því að fá til sín mót og koma að umsókn með HSK um að halda umrædd mót.

Sveitarfélagið Ölfus og Sveitarfélagið Árborg vildu fá unglingalandsmót og Hveragerðisbær vildi fá 50+ mótið. Stjórn HSK ákvað að senda inn samtals þrjár umsóknir til UMFÍ vegna mótanna tveggja.

Ákvörðun stjórnar UMFÍ um mótsstaði verður væntanlega tekin fyrir á næsta stjórnarfundi, sem haldinn verður um miðjan júní.

Fyrri greinVilja reisa hótel á Óseyrartanga
Næsta greinFyrsta tap KFR – Stokkseyri steinlá