Héraðssambandið Skarphéðinn hefur óskað eftir að taka að sér framkvæmd Landsmóts 50+ árið 2024 og að halda mótið í Þorlákshöfn. Umsóknarfrestur um að halda mótið rennur út í dag. HSK hefur einu sinni haldið Landsmót 50+, en það var í Hveragerði árið 2017.
Sveitarfélagið Ölfus óskaði eftir því við Héraðssambandið Skarphéðinn að lögð verði inn umsókn þess efnis að Landsmót 50+ árið 2024 verði haldið í Þorlákshöfn. Tillaga þess efnis var samþykkt á fundi bæjarstjórnar í lok janúar.
Í tilkynningu frá HSK segir að í Þorlákshöfn sé frábær íþróttaaðstaða og staðurinn henti mjög vel fyrir Landsmót 50+. Allt sé til staðar sem þarf til að halda glæsilegt mót. Mikill hugur er í heimamönnum í Þorlákshöfn og hvorki bilbugur á þeim, né forystu HSK að sjá um framkvæmd mótsins.
Stjórn HSK og bæjarstjórn Ölfus hefur boðið stjórn UMFÍ að koma í heimsókn til Þorlákshafnar, þar sem umsóknin verður kynnt frekar og einnig sú aðstaða sem í boði er fyrir hugsanlegt mót.
Næsta Landsmót 50+ verður haldið í Stykkishólmi dagana 23. – 25. júní 2023 og þar verður keppt í 17 íþróttagreinum.