Lið HSK/Selfoss sigraði með miklum yfirburðum í stigakeppni félagsliða á Meistaramóti Íslands 15-22 ára í frjálsum íþróttum sem haldið var í Laugardalshöllinni um síðustu helgi. Tíu héraðsmet féllu á mótinu.
HSK/Selfoss hlaut 320,5 stig í heildarstigakeppninni en ÍR varð í öðru sæti með 257,5 stig. HSK/Selfoss sigraði einnig stigakeppnina í flokki 15 ára stúlkna, 16-17 ára pilta og 18-19 ára pilta.
Metaregn í langstökkinu
Þorvaldur Gauti Hafsteinsson varð Íslandsmeistari í 800 m hlaupi 16-17 ára pilta og bætti um leið HSK-met í 800 m hlaupi í tveimur flokkum, 16-17 ára og 18-19 ára. Þorvaldur Gauti hljóp á 2:00,91 mín en hann átti sjálfur eldri met í báðum flokkum, 2:01,55 mín.
Hugrún Birna Hjaltadóttir varð Íslandsmeistari í langstökki 16-17 ára og jafnaði þar HSK-met Helgu Fjólu Erlendsdóttur í þessum aldursflokki, stökk 5,27 m. Síðar sama daginn tvíbætti Helga Fjóla hins vegar metið í flokknum auk þess að setja met í flokkum 15 ára og 18-19 ára. Helga Fjóla stökk 5,29 m og síðan 5,32 m. Helga Fjóla átti sjálf gömlu metin í flokkum 15 og 16-17 ára en fyrra met í 18-19 ára flokki átti Bryndís Eva Óskarsdóttir, 5.30 m og var það orðið 21 árs gamalt. Helga Fjóla átti frábært mót og varð fimmfaldur Íslandsmeistari í flokki 15 ára stúlkna en auk þess að sigra í langstökkinu vann hún gull í 60 m hlaupi, 60 m grindahlaupi, hástökki og þrístökki.
Tvö héraðsmet féllu í 2.000 m hlaupi. Sæmundur Ingi Jónsson varð fyrstur af sambandssvæði HSK til þess að hlaupa 2.000 m hlaup innanhúss í flokki 15 ára pilta og setti þar með héraðsmet þegar hann hljóp á 9:35,50 mín og varð í 9. sæti. Aldís Fönn Benediktsdóttir setti sömuleiðis héraðsmet í 2.000 m hlaupi 15 ára stúlkna og vann um leið bronsverðlaun. Hún hljóp á 8:35,02 mín og bætti þar með met Söru Mistar Sigurðardóttur í þessum aldursflokki um rúmlega hálfa mínútu.
Tuttugu gullverðlaun á Suðurland
Bryndís Embla Einarsdóttir varð tvöfaldur Íslandsmeistari í flokki 15 ára stúlkna, sigraði í stangarstökki og kúluvarpi. Í flokki 16-17 ára varð Hjálmar Vilhelm Rúnarsson þrefaldur Íslandsmeistari en hann sigraði í langstökki, þrístökki og kúluvarpi. Ívar Ylur Birkisson sigraði í 60 m grindahlaupi í sama aldursflokki og Ísold Assa Guðmundsdóttir varð Íslandsmeistari í stangarstökki.
Í flokki 18-19 ára varð Daníel Breki Elvarsson Íslandsmeistari í 60 m grindahlaupi og Egill Atlason Waagfjörð, Umf. Kötlu, varð Íslandsmeistari í langstökki.
Sunna María Kjartansdóttir Lubecki varð þrefaldur Íslandsmeistari í flokki 20-22 ára en hún sigraði í 200 m hlaupi, langstökki og þrístökki. Hildur Helga Einarsdóttir varð Íslandsmeistari í kúluvarpi í sama aldursflokki.
Framganga Sunnlendinganna var frábær á mótinu. Sunnlenskir keppendur hlutu 20 gullverðlaun, 15 silfur og 21 bronsverðlaun og fimmtíu bætingar á persónulegum árangri litu dagsins ljós.