HSK/Selfoss sigraði örugglega á MÍ 11-14 ára

Sigurlið HSK/Selfoss. Ljósmynd/Frjálsíþróttasamband Íslands

Lið HSK/Selfoss sigraði örugglega á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum 11-14 ára sem haldið var á Laugum í Þingeyjarsveit um síðustu helgi.

HSK/Selfoss hlaut 746,5 stig í heildarstigakeppninni og næsta lið þar á eftir var ÍR með 606 stig. HSK/Selfoss vann einnig stigakeppnina í flokkum 11 ára pilta, 12 ára stúlkna og 14 ára stúlkna.

Tvö HSK-met og eitt mótsmet
Tvö HSK-met voru sett á mótinu, Magnús Tryggvi Birgisson, sem varð þrefaldur Íslandsmeistari í flokki 13 ára setti héraðsmet í 2.000 m hlaupi 13 ára, hljóp á 7:50,42 mín og bætti einnig mótsmetið í kringlukasti 13 ára, þegar hann kastaði 34,95 m. Magnús Tryggvi sigraði í kringlukastinu og tók auk þess gullið í spjótkasti og þrístökki.

Andri Már Óskarsson setti héraðsmet í 400 m hlaupi 11 ára pilta, hljóp á 72,08 sek og bætti fjögurra ára gamalt með Gunnars Erik Cevers, Umf. Selfoss, um 2,39 sekúndur. Í flokki 11 ára pilta var keppt í fjölþraut og þar varð Andri Már Íslandsmeistari með 53 stig en í þrautinni vann hann bæði í 400 m hlaupi og langstökki.

Anna Metta sexfaldur meistari
Í fjölþraut 12 ára stúlkna varð Sigríður Elva Jónsdóttir Íslandsmeistari með 44,5 stig en hún náði meðal annars góðum árangri í 60 m hlaupi og hástökki og varð önnur í báðum greinum.

Ásta Kristín Ólafsdóttir varð tvöfaldur Íslandsmeistari í 13 ára flokki, sigraði í kúluvarpi og spjótkasti og í sama aldursflokki varð Magnea Furuhjelm Magnúsdóttir Íslandsmeistari í 80 m hlaupi.

Hjá 13 ára piltum krækti Ingólfur Atlason Waagfjörð í eina Íslandsmeistaratitil Ungmennafélagsins Kötlu en hann sigraði í 2.000 m hlaupi.

Í flokki 14 ára stúlkna rakaði Anna Metta Óskarsdóttir inn verðlaunum og varð sexfaldur Íslandsmeistari. Hún sigraði í 80 m hlaupi, hástökki, langstökki, þrístökki, kringlukasti og var í boðhlaupssveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4×100 m hlaupi. Með henni í sveitinni voru Elísabet Freyja Elvarsdóttir, Þórunn Eyland Gunnarsdóttir og Adda Sóley Sæland en Adda Sóley varð einnig Íslandsmeistari í spjótkasti 14 ára stúlkna.

Anna Metta Óskarsdóttir varð sexfaldur Íslandsmeistari. Ljósmynd/selfoss.net
Fyrri grein1.200 hjólreiðamenn á Hvolsvelli um helgina
Næsta greinSelfoss örugglega inn í 8-liða úrslitin