HSK vann yfirburðasigur á MÍ 11-14 ára

Lið HSK/Selfoss sigraði með yfirburðum í heildarstigakeppni Meistaramóts Íslands í frjálsum íþróttum 11-14 ára, sem fram fór í Kaplakrika í Hafnarfirði um síðustu helgi.

HSK/Selfoss fékk samtals 875,5 stig en FH kom næst með 559,5 stig. HSK/Selfoss sigraði einnig í stigakeppni 11 ára pilta, 13 ára pilta, 14 ára pilta og 12 ára stúlkna.

Sebastian Þór Bjarnason varð þrefaldur Íslandsmeistari í flokki 14 ára pilta. Hann sigraði í kúluvarpi og langstökki og var svo í sveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4×200 m boðhlaupi á nýju HSK meti; 1:47,82 mín. Sveitin bætti tveggja ára gamalt met sveitar HSK/Selfoss um 0,06 sekúndur en þetta var eina HSK metið sem slegið var á mótinu. Með Sebastian í sveitinni voru Goði Gnýr Guðjónsson, Haukur Arnarsson og Sæþór Atlason. Sæþór varð einnig Íslandsmeistari í 60 m grindahlaupi á persónulegu meti, 9,45 sek.

Brynjar Logi Sölvason sigraði í hástökki 14 ára pilta á meistaramótinu á persónulegu meti, 1,67 sm, og Guðný Vala Björgvinsdóttir varð Íslandsmeistari í langstökki 14 ára stúlkna. Hún bætti sömuleiðis sinn besta árangur, stökk 4,54 m.

Fjöldi verðlauna á sambandssvæði HSK
Sölvi Örn Heiðarsson varð Íslandsmeistari í kúluvarpi 13 ára pilta á persónulegu meti 8,91 m og Rúrik Nikolai Bragin sigraði í hástökki í sama aldursflokki, bætti sig um 2 sm og stökk 1,52 m. Sveit HSK/Selfoss varð Íslandsmeistari í 4×200 m boðhlaupi 13 ára pilta en sveitina skipuðu þeir Tómas Þorsteinsson, Sigurjón Reynisson, Einar Breki Sverrisson og Daði Kolviður Einarsson.

Veigar Þór Víðisson varð Íslandsmeistari í hástökki 12 ára pilta á persónulegu meti 1,43 sm og Oliver Jan Tomczyk sigraði í kúluvarpi í sama aldursflokki. Þar var einnig um að ræða bætingu á persónulegum árangri, 7,78 m.

HSK/Selfoss náði í þrjá Íslandsmeistaratitla í flokki 11 ára pilta. Kristófer Árni Jónsson varð Íslandsmeistari í 600 m hlaupi á 1:58,37 mín, Heimir Gamalíel Helgason í hástökki með 1,29 m og Örn Breki Siggeirsson í kúluvarpi, með 7,97 m. Kristófer og Heimir bættu sinn persónulega árangur í greinunum en Örn Breki jafnaði sitt besta kast.

Alls unnu keppendur HSK/Selfoss 51 verðlaun á mótinu, fjórtán gull, sautján silfur og tuttugu brons.

Stephanie setti mótsmet
Stephanie Ósk Ingvarsdóttir, Ungmennafélaginu Kötlu, náði frábærum árangri á mótinu í flokki 11 ára stúlkna. Hún sigraði í hástökki á nýju mótsmeti, 1,38 m, og bætti svo gullverðlaunum í langstökki og silfurverðlaunum í kúluvarpi einnig í safnið.


Stephanie Ósk Ingvarsdóttir, Umf. Kötlu, Íslandsmeistari í hástökki og langstökki á verðlaunapalli ásamt Eydísi Örnu Birgisdóttur, HSK/Selfoss, og Jónínu Linnet, FH. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Sveit HSK/Selfoss, Sigurjón, Tómas, Daði Kolviður og Einar Breki, fagnar gullinu í 4×200 m boðhlaupi 13 ára pilta. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Örn Breki Siggeirsson, Íslandsmeistari í kúluvarpi 11 ára pilta, á verðlaunapalli ásamt Audric Lelarge úr KR og Kristófer Árna Jónssyni, HSK/Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Fjórtán ára piltasveit HSK/Selfoss, Sæþór, Haukur, Sebastian og Goði Gnýr, bætti héraðsmetið í aldursflokknum í 4×200 m boðhlaupi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Fjórtán ára stúlknasveit HSK/Selfoss náði bronsinu í 4×200 m boðhlaupi. Sveitina skipuðu Ingibjörg Bára Pálsdóttir, Hrefna Sif Jónasdóttir, Guðný Vala Björgvinsdóttir og Margrét Inga Ágústsdóttir. Guðný Vala, sem er önnur frá hægri, varð Íslandsmeistari í langstökki 14 ára stúlkna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Þrefaldur HSK/Selfoss-sigur í 60 m grindahlaupi 14 ára pilta. (F.v.) Haukur, Sæþór og Brynjar Logi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Heimir Gamalíel Helgason bætti sig um 24 sm í hástökki og varð Íslandsmeistari 11 ára pilta. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Þrefaldur HSK/Selfoss-sigur í kúluvarpi 13 ára pilta (f.v.) Rúrik, Sölvi Örn og Tómas. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Selfyssingar fögnuðu þrefalt í kúluvarpi 14 ára pilta. (F.v.) Sæþór, Sebastian og Benjamín Guðnason. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Sveit HSK/Selfoss sigraði stigakeppnina í flokki 11 ára pilta. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Sveit HSK/Selfoss sigraði stigakeppnina í flokki 12 ára stúlkna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Sveit HSK/Selfoss sigraði stigakeppnina í flokki 13 ára pilta. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Sveit HSK/Selfoss sigraði stigakeppnina í flokki 14 ára pilta. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinSelfoss byrjar vel eftir fríið
Næsta greinKvöldstund á Kyndilmessu