Karlalið Selfoss sótti botnlið Hugins heim í Inkasso-deildinni í knattspyrnu í dag. Heimamenn knúðu fram jafntefli í uppbótartíma.
Selfyssingar byrjuðu vel í leiknum og voru komnir í 0-2 eftir fimmtán mínútna leik. Afmælisdrengurinn Teo Garcia kom þeim yfir á 3. mínútu og Stefán Ragnar Guðlaugsson bætti við öðru marki á 15. mínútu með glæsilegum skalla.
Tveimur mínútum síðar minnkaði Huginn muninn en fátt fleira markvert gerðist í fyrri hálfleik, utan hvað Stefán Ragnar var borinn meiddur af velli eftir um hálftíma leik.
Staðan var 1-2 í hálfleik en heimamenn voru fljótari til að skora í síðari hálfleik. Þeir jöfnuðu metin á 59. mínútu og eftir það skiptust liðin á að sækja án árangurs.
Það var ekki fyrr en fimm mínútur voru eftir að Arnór Gauti Ragnarsson kom Selfyssingum aftur yfir og allt stefndi í sigur þeirra vínrauðu. Huginn jafnaði hins vegar metin í uppbótartíma, með síðasta skalla leiksins.
Selfoss hefur nú fimmtán stig í 6. sæti deildarinnar en Huginn er enn í botnsætinu með sex stig.