Hulda Dís og Henriette bestar

Henriette Østergaard og Hulda Dís Þrastardóttir. Ljósmynd/Einar Sindri

Ragnarsmóti kvenna í handbolta lauk í kvöld en eftir æsispennandi lokakafla hafði ÍR sigur á mótinu.

Selfoss sigraði Fylki í kvöld, 27-19, þar sem staðan í hálfleik var 11-7. Hulda Dís Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 7 mörk.

Úrslitin á mótinu réðust svo í hinum leik kvöldsins þar sem Grótta sigraði ÍR 27-23. Lokasekúndurnar voru hins vegar æsispennandi því síðasta mark ÍR tryggði þeim sigur á mótinu vegna innbyrðis markatölu.

ÍR sigraði því á Ragnarsmótinu 2019, Selfoss varð í 2. sæti, Grótta í því þriðja og Fylkir í 4. sæti. Ef mótið gefur rétta mynd af því sem koma skal, þá er ljóst að Grill 66 deildin verður hörkuspennandi í vetur.

Í mótslok voru veittar viðurkenningar en þar var Hulda Dís Þrastardóttir valin besti leikmaður mótsins en hún var markahæst á mótinu ásamt Elínu Rósu Magnúsdóttur, Fylki, með 17 mörk. Henriette Østergaard, markvörður Selfoss, var valin besti markvörðurinn, Laufey Höskuldsdóttir, ÍR, varnarmaður mótsins og Hildur Marín Andrésdóttir, ÍR, besti sóknarmaðurinn.

ÍR-ingar í mótslok. Ljósmynd/Einar Sindri
Fyrri greinBrynjólfur skaut Hamri í úrslit
Næsta greinStundum gott að vera sófaklessa