Kúluvarparinn Hulda Sigurjónsdóttir úr Íþróttafélaginu Suðra fékk á dögunum boð til að keppa á lokamóti Grand Prix mótaraðar IPC (Alþjóðaólympíuhreyfingar fatlaðra) í London.
Hulda sem hefur verið í mikilli framför síðustu misseri kastaði lengst 9,65 metra á mótinu og hafnaði í 5. sæti en mótið var haldið á Ólympíuleikvanginum í London.
„Þetta voru svo mikil viðbrigði fyrir mig að keppa í kringum allan þennan hávaða. Það er munur að keppa í Laugardalnum með fáa sem enga áhorfendur eða 10-15 þúsund manns og allir að öskra,“ sagði Hulda.
Ljóst er að Hulda er að skipa sér á sess með fremstu kúluvörpurum í röðum þroskahamlaðra og verður forvitnilegt að fylgjast áfram með þessari öflugu Suðrakonu.
Þess má geta að á 30 ára afmælisdaginn sinn, 26. júní sl., komst Hulda yfir 10 metra múrinn í fyrsta sinn, þegar hún kastaði 10,26 metra og bætti þar með Íslandsmetið sitt enn og aftur. Ekki þarf að taka fram að þetta er að sjálfsögðu líka HSK met hjá henni.