Kvennalið Selfoss í N1-deildinni í handbolta tefldi fram nýjum erlendum leikmanni í leiknum gegn Haukum í gær en það er Carmen Palamariu frá Rúmeníu.
Palamariu, sem er 24 ára gömul, kom hingað til lands í haust til þess að spila með KA/Þór í N1-deildinni en þegar liðið hætti við þátttöku í Íslandsmótinu var Palamariu félagslaus.
„Það var mikil ógæfa og leiðinlegt fyrir handboltann á Íslandi að missa lið út rétt fyrir mót en við vorum svo heppin þegar KA sendi út tölvupóst um þennan leikmann að vera fyrst til að grípa tækifærið og fá hana hingað,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is.
„Við náðum að útvega það sem þurfti til að fá hana hingað en það gekk erfiðlega að koma peningunum til Rúmeníu þannig að hún var ekki komin með leikheimild fyrir fyrsta leik. Rúmenarnir neituðu að skrifa undir félagaskiptin fyrr en peningurinn var kominn inn á bók hjá þeim því þeir taka ekki bankakvittun frá Handknattleikssambandi Evrópu gilda.“
Palamariu spilaði því sinn fyrsta leik fyrir Selfoss í gær þegar liðið tapaði fyrir Haukum á heimavelli, 21-23. Hún stóð sig vel í leiknum og var markahæst með 8/5 mörk.
Auk þess að spila í Rúmeníu hefur Palamariu spilað bæði í Grikklandi og á Kýpur og Sebastian segir að hún komi til með að nýtast Selfossliðinu vel.
„Hún er mjög góður hornamaður fyrst og fremst en það skiptir engu máli hvar við látum hana spila, hún hjálpar okkur alltaf. Það er frábært að fá hana til þess að styðja við þessar ungu stelpur í liðinu, sérstaklega þar sem stærstur hluti meistaraflokks er líka að spila í 3. flokki og við verðum að passa það að eiga einhverja leikmenn til þess að taka álagið þegar líður á veturinn,“ sagði Sebastian að lokum.
Selfoss hefur nú spilað tvo leiki í N1-deildinni, unnið Aftureldingu og tapað fyrir Haukum. Næsti leikur liðsins er gegn FH á heimavelli, laugardaginn 13. október.