Selfoss tapaði 75-83 eftir jafnan leik á heimavelli gegn Hetti frá Egilsstöðum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Leikurinn var jafn allan tímann en Höttur leiddi í leikhléi, 36-40.
„Ég er stoltur af strákunum, þeir börðust vel. Við vorum tólf stigum undir og náðum að koma því niður í þrjú stig. Við þurfum að vera rólegri, við nýttum sóknirnar vel þangað til á lokamínútunum þegar við létum þá ýta okkur út í hluti sem við ætluðum ekki að gera,“ sagði Chris Caird, þjálfari Selfoss, í samtali við Gest frá Hæli eftir leik.
Þrátt fyrir erfiða byrjun á tímabilinu segir Chris að Selfyssingar hengi ekki haus.
„Deildin er erfið og nokkrir atvinnumenn í flestum liðum. Sjáðu meðalaldurinn hjá okkur. Þessi töp í upphafi tímabilsins eru bara skóli fyrir strákana. Það hengir enginn haus, allir eru tilbúnir í næstu æfingu og tilbúnir til þess að bæta sig,“ segir Chris.
Hann ræðir meðal annars endurkomu Maciek Klimaszewski í myndbandinu hér að neðan, en Maciek átti góðan leik í kvöld.
Christian Cunningham var stigahæstur Selfyssinga með 23 stig og 13 fráköst, Maciek skoraði 20 stig, Kristijan Vladovic 15, Rhys Sundimalt 6, Ragnar Magni Sigurjónsson, Arnór Ívarsson og Alexander Gager 3 og Sigmar Jóhann Bjarnason 2.