Hveragerðisbær hefur endurnýjað þjónustusamning við Golfklúbb Hveragerðis sem gildir til ársloka 2014.
Samningi þessum er ætlað að efla samstarf bæjaryfirvalda í Hveragerðisbæ og GHG og tryggja áfram öflugt íþrótta- og tómstundastarf fyrir börn og unglinga í Hveragerði samkvæmt stefnu bæjaryfirvalda þar um.
Er samningnum ætlað að tryggja enn frekar starfsemi GHG, enda er bæjarstjórn Hveragerðisbæjar þeirrar skoðunar að GHG sinni öflugu forvarnarstarfi. Heildarverðmæti samningsins tæpar 19 milljónir króna.
Markmiðið með samningnum er að efla golfíþróttina í Hveragerði og að sem flestum gefist kostur á þátttöku í greininni án óhóflegrar gjaldtöku. Til að efla áhuga bæjarbúa á golfíþróttinni mun GHG standa fyrir golfnámskeiði fyrir börn og unglinga í samvinnu við Hveragerðisbæ. Einnig mun golfklúbburinn áfram sinna viðhaldi og umhirðu á knattspyrnuvöllum bæjarins.