Keppni í 1. deild karla í körfubolta hófst í kvöld með leik Hamars og ÍA í Frystikistunni í Hveragerði. Hamarsmenn voru frosnir eftir sumarfríið en Skagamenn sjóðheitir og unnu þeir öruggan sigur, 86-99.
Gestirnir byrjuðu betur og komust í 5-14 í upphafi leiks en Hamar vann sig inn í leikinn undir lok 1. leikhluta og minnkaði muninn í 27-33 með góðri vörn. Annar leikhluti var jafnari en Skagamenn voru skrefinu á undan og leiddu í hálfleik, 52-58.
Heimamenn minnkuðu muninn í 63-64 með góðri byrjun í síðari hálfleik. Skagamenn tóku leikhlé og röðuðu í kjölfarið niður körfunum og munurinn var kominn í tíu stig fyrir síðasta leikhlutann.
Þar létu gestirnir kné fylgja kviði og komust mest sautján stigum yfir, 73-90. Hamarsmenn misstu boltann hvað eftir annað og náðu engum takti í sinn leik undir lokin og þegar upp var staðið unnu gestirnir sanngjarnan sigur, 86-99.
Danero Thomas var stigahæstur hjá Hamri með 19 stig, Aron Freyr Eyjólfsson og Bragi Bjarnason skoruðu 14 stig og Halldór Gunnar Jónsson 10 stig.