Hamar hafði talsverða yfirburði í Suðurlandsslagnum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld en Hrunamenn komu í heimsókn í Hveragerði.
Það var ekki síst fyrir stórleik Björns Ásgeirs Ásgeirssonar að Hamar náði sigri, auk þess sem Ragnar Nathanaelsson var í miklum ham undir körfunni. Björn Ásgeir skoraði 41 stig og Ragnar tók 22 fráköst og munar um minna.
Leikurinn var jafn í 1. leikhluta en í 2. leikhluta skildi á milli og Hamar leiddi 52-33 í hálfleik. Í upphafi seinni hálfleiks var allt í járnum en í 4. leikhluta gerðu Hamarsmenn endanlega út um leikinn og sigruðu að lokum 108-76.
Staðan í deildinni er þannig að Hamar er í 3. sæti með 14 stig en Hrunamenn eru í 5. sæti með 10 stig. Á milli þeirra sitja Selfyssingar með 12 stig.
Tölfræði Hamars: Björn Ásgeir Ásgeirsson 41/5 fráköst, Jose Medina 15/7 fráköst/7 stoðsendingar, Daði Berg Grétarsson 11, Mirza Sarajlija 11/4 fráköst, Ragnar Nathanaelsson 8/22 fráköst, Elías Bjarki Pálsson 6/5 fráköst, Alfonso Birgir Gomez 5/4 fráköst, Baldur Freyr Valgeirsson 3, Halldór Benjamín Halldórsson 3, Daníel Sigmar Kristjánsson 2, Haukur Davíðsson 2/4 fráköst, Egill Þór Friðriksson 1.
Tölfræði Hrunamanna: Ahmad Gilbert 35/7 fráköst/6 stoðsendingar, Samuel Burt 14/8 fráköst, Friðrik Heiðar Vignisson 7, Eyþór Orri Árnason 6/9 fráköst, Dagur Úlfarsson 5, Haukur Hreinsson 3, Yngvi Freyr Óskarsson 3, Óðinn Freyr Árnason 3.