Hvergerðingar kátir í lokin

Þarf alltaf að vera grín? Jaeden King var á því í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar tók á móti Fjölni í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum 1. deildar karla í körfubolta í Hveragerði í kvöld. Eftir æsispennandi leik sigruðu Hvergerðingar 78-76.

Fjölnir náði tíu stiga forskoti í upphafi leiks en þá tóku Hamarsmenn við sér og staðan var 21-21 eftir 1. leikhluta. Liðin skiptust á áhlaupum í 2. leikhluta en Hamar skoraði síðustu körfu fyrri hálfleiks og staðan var 42-41 í leikhléi.

Hamar leiddi allan 3. leikhlutann en Fjölnir var aldrei langt undan og þegar rúmar sjö mínútur voru eftir af leiknum jöfnuðu gestirnir 66-66. Fjölnir náði fimm stiga forskoti í kjölfarið en Hvergerðingar voru sterkari á lokamínútunum og sigruðu með tveimur stigum.

Jaeden King var stiga- og framlagshæstur hjá Hamri með 27 stig og 11 fráköst. Fotios Lampropoulos skoraði 14 stig og tók 17 fráköst og Jose Medina skoraði 14 stig og tók 10 stoðsendingar.

Staðan í einvíginu er 1-0 fyrir Hamri. Liðin mætast næst á laugardaginn kl. 19:15 í Grafarvoginum en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki mun leika til úrslita gegn Ármanni eða Breiðabliki.

Hamar-Fjölnir 78-76 (21-21, 21-20, 20-18, 16-17)
Tölfræði Hamars: Jaeden King 27/11 fráköst, Jose Medina 14/5 fráköst/10 stoðsendingar, Fotios Lampropoulos 14/17 fráköst, Lúkas Aron Stefánsson 11/6 fráköst, Ragnar Agust Nathanaelsson 5/13 fráköst, Daníel Sigmar Kristjánsson 4/5 fráköst, Egill Þór Friðriksson 3.

Fyrri greinGlænýr verslunarkjarni á Selfossi opnar í maí
Næsta greinFyrsti blaktitill Laugdælastúlkna á HSK móti